top of page

Kynbundin áreitni og ofbeldi

Skilgreining á kynbundinni áreitni og ofbeldi

Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Með hugtakinu kynbundið ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Dæmi um kynbundna áreitni eða ofbeldi: Niðrandi eða lítillækkandi athugasemdir um kyn einstaklings og getu hans/hennar/þeirra. Orðbragð eða hegðun sem er særandi, ógnandi eða móðgandi út frá kyni. Óvelkomnar snertingar, kossar, þukl og/eða káf. Kynferðisleg hegðun annarra, tilraun til kynferðislegrar misnotkunar og nauðgun.


"Gerandi getur verið af hvaða kyni sem er og þolandi getur verið af sama eða öðru kyni. Gerendur geta verið fleiri en einn gagnvart einum eða fleiri og þolendur geta að sama skapi verið einn eða fleiri. Þá getur upplifun og viðhorf á verið mjög mismunandi eftir aðstæðum og samhengi." - Upplýsingarbæklingur ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu



Hvenær telst hegðun kynbundin áreitni eða ofbeldi?

Upplifun þess sem fyrir ofbeldi verður getur verið mjög misjöfn og er hún mælikvarðinn á alvarleika ofbeldisins. Kynbundið ofbeldi einkennist oft af misnotkun á valdi eða stöðu, andlegri kúgun og að sjálfsvirðingu sé misboðið. Framkomu sem ætlað er að knýja einstaklinga til undirgefni og gera lítið úr þeim, endurtekinni áreitni og niðurlægingu fyrir þann sem fyrir áreitninni verður og hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans.

Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Orðbundin

  • Óvelkomin kynferðisleg eða kynbundin stríðni, grín, athugasemdir eða spurningar.

  • Persónulegar spurningar um einkalíf eða kynlíf eða að breiða út orðróm um kynferðislega hegðun einstaklings.

  • Kynbundnar eða kynferðislegar athugasemdir um klæðnað eða útlit einstaklings.

  • Óviðeigandi og/eða þrálát boð á stefnumót.

  • Að láta starfsmann klæðast á kynferðislegan eða kynbundinn hátt við vinnu.

  • Þrýstingur um kynferðislega greiða.

Táknræn

  • Óvelkomnar kynferðislegar augngotur eða önnur hegðun sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna.

  • Flauta á eftir einstaklingi.

  • Sýna eða senda kynferðislegt efni s.s. gegnum SMS, tölvupóst eða samfélagsmiðla.

  • Að hengja upp plaköt, dagatöl eða myndefni sem innihalda kynferðislegt efni eða niðurlægir annað kynið.

Líkamleg

  • Nauðgun eða tilraun til kynferðislegs ofbeldis.

  • Hrista, slá, sparka, bíta eða rassskella.

  • Óvelkomin faðmlög, kossar, klapp eða strokur.

  • Að fara inn á persónulegt rými einstaklings, s.s. með því að halla sér yfir eða króa af enda sé hegðunin óvelkomin.

  • Óvelkomin snerting, grip og þukl.

Hvað á ég að gera ef ég hef orðið fyrir kynbundu ofbeldi?

Láttu vita. Ef þú hefur einhvern í þínu lífi sem þú treystir segðu honum, henni eða þeim frá. Ef þú vilt ekki segja einhverjum sem þú þekkir hafðu þá samband við samskiptaráðgjafa. Þú getur fengið aðstoð við að láta áreitnina eða ofbeldið hætta.


Afleiðingar kyndundins ofbeldis

Afleiðingar kynbundinnar áreitni og ofbeldis geta haft mikil áhrif á líðan þeirra sem fyrir henni verða. Fólk er misjafnt og getur upplifað kynbundna áreitni og ofbeldi á mismunandi hátt. Engum er það þó til hagsbóta að verða fyrir slíkri áreitni eða ofbeldi. Þeir sem hafa þolað kynbundna áreitni eða ofbeldi gætu til dæmis upplifað:

  • Svefnerfiðleika

  • Einbeitningarerfiðleika

  • Kvíða- eða þunglyndiseinkenni

  • Líkamleg streitueinkenni

  • Að draga sig í hlé frá félagslegum aðstæðum

  • Tilfinningar sem einkennast af sekt eða skömm


Aðstoð við vanlíðan

Það er hægt að fá aðstoð við að vinna sig út úr vanlíðan sem kynbundin áreitni getur orsakað. Þú getur haft samband við heilbrigðismenntaðan fagaðila eins og til dæmis sálfræðing eða fengið upplýsingar hjá heimilislækni. Einnig er hægt að fá frekari ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa um hvert er hægt að leita, hafðu samband.




bottom of page