top of page

Kynferðisleg áreitni eða ofbeldi

Skilgreining á kynferðislegri áreitni og ofbeldi

Með hugtakinu kynferðisleg áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga (lög 19/1940). Þar stendur að sá sem hefur samræði við mann án hans samþykkis eða með því að beita ofbeldi, hótun, þvingun, innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti, skuli sæta fangelsi.

Dæmi um kynferðislega áreitni/ofbeldi: Ýmiskonar óvelkomnar snertingar, káf eða þukl utan klæða sem innan. Orðbragð sem er klámfengið eða klúrt og hótanir um að beita kynferðislegu ofbeldi. Kynferðisleg misnotkun og nauðgun.



Til eru margar mismunandi skilgreiningar á því hvað kynferðislegt ofbeldi er. Í víðtækustum skilningi er það skilgreint þannig að það nær yfir allt kynferðislegt samneyti frá káfi yfir í samfarir sem ekki er samþykkt eða velkomið af öðrum aðilanum. Þolendur og gerendur geta verið af báðum kynjum, á öllum aldri, bæði ókunnugir og nákomnir.

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi getur verið í margskonar birtingarmynd. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Orðbundin

  • Óvelkomnar kynferðislegar athugasemdir, grín eða stríðni.

  • Persónulegar spurningar um kynlíf, kynlífsreynslu og/eða eigin líkama.

  • Kynferðislegar athugasemdir um klæðnað eða útlit einstaklings.

  • Beiðnir eða þrýstingur um kynferðislega greiða eða athafnir.

  • Óviðeigandi og/eða þrálát boð á stefnumót.

Táknræn

  • Óvelkomnar kynferðislegar augngotur, líkamstjáning eða önnur hegðun sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna.

  • Að flauta á eftir einstaklingi.

  • Sýna eða senda kynferðislegt efni til dæmis í gegnum SMS, tölvupóst eða samfélagsmiðla.

Líkamleg

  • Nauðgun, tilraun til kynferðislegs ofbeldis eða hótun um slíkt.

  • Þvingun til kynferðislegra athafna.

  • Að klípa, grípa, þukla eða rassskella.

  • Óvelkomin faðmlög, kossar, klapp eða strokur.

  • Að fara inn á persónulegt rými einstaklings, til dæmis með því að standa í mikilli nálægð, halla sér yfir eða króa hann/hana af.

Hvað á ég að gera ef ég hef orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi?

Láttu vita. Ef þú hefur einhvern í þínu lífi sem þú treystir, segðu honum, henni eða þeim frá. Ef þú vilt ekki segja einhverjum sem þú þekkir hafðu þá samband við samskiptaráðgjafa. Þú getur fengið aðstoð við að láta áreitnina eða ofbeldið hætta.


Afleiðingar kynferðisofbeldis

Afleiðingar kynferðislegrar áreitni og ofbeldis geta verið alvarlegar. Fólk er misjafnt og getur upplifað kynferðislega áreitni og ofbeldi á mismunandi hátt. Engum er það þó til hagsbóta að verða fyrir slíkri áreitni eða ofbeldi. Þeir sem hafa þolað kynferðislega áreitni eða ofbeldi gætu til dæmis upplifað:

  • Svefnerfiðleika

  • Einbeitningarerfiðleika

  • Kvíða- eða þunglyndiseinkenni

  • Líkamleg streitueinkenni

  • Að draga sig í hlé frá félagslegum aðstæðum

  • Tilfinningar sem einkennast af sekt eða skömm

Aðstoð við vanlíðan

Það er hægt að fá aðstoð við að vinna sig út úr vanlíðan sem kynferðisofbeldi getur orsakað. Þú getur haft samband við heilbrigðismenntaðan fagaðila eins og til dæmis sálfræðing eða fengið upplýsingar hjá heimilislækni. Einnig er hægt að fá frekari ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa um hvert er hægt að leita, hafðu samband.




Kommentare


bottom of page