top of page
  • sigurbjorg

Skilgreiningar ofbeldis



  • Ofbeldi


Ofbeldi eru athafnir sem valda öðrum einstaklingi sársauka, andlegum

eða líkamlegum, án tillits til þess hvort um er að ræða ásetning eða ekki.


  • Einelti


Einelti er skilgreint sem endurtekin og langvarandi, neikvæð, ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Hegðunin hefur neikvæðar afleiðingar fyrir þá sem fyrir henni verða og hún getur falið í sér valdaójafnvægi. Eineltið getur verið líkamlegt, munnlegt, félagslegt og rafrænt.


  • Neteinelti


Neteinelti er yfirleitt skilgreint sem neikvætt áreiti af ásettu ráði af höndum eins aðila eða hóps á rafrænu formi gagnvart einstaklingi sem getur ekki auðveldlega varið sig. Um er að ræða áreiti sem getur falið í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi í gegnum hvers konar upplýsinga- og samskiptatækni.


  • Andlegt ofbeldi


Andlegt ofbeldi getur til dæmis verið í formi orðaskipta, líkamstjáningar eða hunsunar. Dæmi um andlegt ofbeldi eru samskipti sem einkennast af niðurlægingu, markvisst niðurbrot einstaklings, ómanneskjuleg framkoma, ofsóknir, öskur, hótanir og ógnir, langvarandi þögn. Andlegt ofbeldi er oft notað til að stjórna öðrum eða ná völdum yfir þeim.


  • Líkamlegt ofbeldi


Líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi, hvort sem líkamlegur skaði hlýst af eða ekki. Dæmi um líkamlegt ofbeldi er að kýla, kyrkja, sparka, klóra, bíta, toga í hár.


  • Kynbundin áreitni


Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu hans og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.


  • Kynbundið ofbeldi


Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir því verður, en einnig hótun um slíkt ofbeldi, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.


  • Kynferðisleg áreitni


Kynferðisleg áreitni getur verið eitthvað sem er sagt, gert eða jafnvel

myndefni sem einstaklingi er sýnt. Sem dæmi má nefna nærgöngular

spurningar um einkalíf einstaklings, óumbeðnar athugasemdir um útlit

eða klæðaburð og óviðeigandi brandara. Kynferðisleg áreitni getur t.d.

falist í því að einstaklingur stingi upp á kynferðislegum athöfnum eða

geri kröfu um þær. Kynferðisleg áreitni getur líka falist í óþarfri og óviðeigandi snertingu sem er kynferðislegs eðlis, til dæmis að klípa, nudda sér utan í einstakling, reyna að kyssa einstakling eða strjúka honum.


  • Kynferðislegt ofbeldi


Kynferðislegt ofbeldi felur í sér misnotkun á öðrum einstaklingi þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Undir kynferðislegt ofbeldi fellur einnig að beita brögðum til að fá einstakling til að taka þátt í kynferðislegri athöfn sem viðkomandi vill ekki taka þátt í eða er ekki nægilega þroskaður til að samþykkja. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi almennra hegningarlaga. Kynferðislegt tal, sýni- og gægjuhneigð og að sýna barni klámfengið efni eru dæmi um brot sem fela ekki í sér beina snertingu en flokkast sem kynferðislegt ofbeldi.


  • Stafrænt kynferðisofbeldi

Stafrænt kynferðisofbeldi er kynferðisofbeldi sem á sér stað á netinu eða á annan rafrænan hátt. Það að senda kynferðislegt efni til manneskju án samþykkis er kynferðisofbeldi sem og að dreifa slíku efni án samþykkis. Þetta á jafnt við um myndir, myndbönd, hljóðskjöl eða skrifaðan texta sem fela sér í nekt eða annað kynferðislegt efni sem viðkomandi hefur ekki gefið leyfi fyrir upptöku á og/eða dreifingu. Það er líka kynferðisofbeldi að suða eða þvinga fram kynferðislegt efni jafnvel þó því sé aldrei dreift.


  • Kynþáttahatur


Kynþáttahatur, eða rasismi, felur í sér þá hugmynd að mannkynið skiptist í kynþætti, eða kynstofna, sem áberandi munur er á, og að einn kynþáttur sé æðri öðrum. Kynþáttahatur er skilgreint sem andúð gagnvart fólki af öðrum kynþætti og trú á yfirburði eigin kynþáttar. Einstaklingar eru fyrst og fremst metnir út frá þeim kynþætti sem þeir tilheyra og þeim einkennum sem rasistar telja þá hafa. Helsta birtingarmynd rasisma eru fordómar vegna húðlitar, sem birtast til dæmis sem niðurlægjandi ummæli og uppnefni sem tengjast húðlit.



  • Fordómar gagnvart jaðarsettum einstaklingum og hópum


Fordómar fela í sér staðhæfingar eða skoðanir sem einstaklingur trúir á og lætur hugsun sína og hegðun stjórnast af án þess nokkurn tíma að draga þá í efa eða gagnrýna. Fordómar fela í sér að dómur er felldur um einstaklinga eða hópa fólks án þess að sá sem þá hefur hafi kynnt sér réttmæti og rök máls af sanngirni og því hafa þeir sem hafa fordóma ekki góðar ástæður fyrir þeim.


Fordómar byggja yfirleitt á staðalmyndum (viðtekin skoðun fólks um sérkenni einstaklinga eða hópa sem tilheyra minnihlutahópum innan samfélagsins)

sem hafa myndast í samfélaginu og beinast yfirleitt gegn einstaklingum eða hópum sem sá sem er með fordómana þekkir ekki, enda má rekja uppruna flestra fordóma til fáfræði. Að sýna fyrirlitningu í framkomu eða orðalagi, að hunsa einstakling eða veita þeim lélegri þjónustu eru dæmi um birtingarmyndir fordóma.


  • Útlendingaandúð


Útlendingaandúð er hugtak sem notað er til þess að lýsa tilhæfulausu hatri og fordómum gagnvart útlendingum. Ein algengasta birtingarmynd útlendingahaturs í dag er andúð í garð múslima.


  • Hinsegin

Orðið hinsegin hefur öðlast sess sem regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem telst hefðbundið kyn eða kynhlutverk.


Comments


bottom of page