top of page
  • sigurbjorg

Á andlegt ofbeldi sér stað í afreksíþróttum barna? -Rýnt í rannsóknargrein



Gervis og Dunne hjá Brunel University í Bretlandi rannsökuðu árið 2004 hvort andlegt ofbeldi hafi átt sér stað í afreksþjálfun barna í íþróttum þar í landi. Þegar komið er upp á afreksstig í íþróttaþjálfun er gott samband iðkanda og þjálfara mikilvægt, sérstaklega fyrir iðkendur á barnsaldri. Þjálfarinn ræður miklu varðandi tækifæri og framtíð iðkandans. Iðkandi eyðir miklum tíma með þjálfara sínum á æfingum og að öllum líkindum meiri tíma en með fjölskyldu sinni.

Viðtöl voru tekin við 12 fyrrum iðkendur sem höfðu náð afreksstigi í sinni íþrótt á aldursbilinu 8-16 ára og höfðu á endanum keppt á hæðsta stigi í sinni íþrótt í að meðaltali 8 ár. Viðtölin voru tekin þegar þessir fyrrum iðkendur voru að meðaltali 22 ára gamlir. Iðkendur komu úr mismunandi íþróttum, úr dýfingum, fótbolta, fimleikum, hokkí og frjálsum, sem sagt bæði úr einstaklings- og hópíþróttum. Þjálfarar þeirra voru konur og karlar.

Greinarhöfundar nýttu sér átta lykilhugtök úr skilgreiningu um andlegt ofbeldi, til að kanna hvort slík atriði kæmu fyrir í afreksþjálfun barna í íþróttum. Þessi lykilhugtök voru; að gera lítið úr (e. belitteling), að niðurlægja (e. humiliating), að öskra (e. shouting), að vera gerð að blóraböggli (e. scapegoating), að hafna (e. rejecting), að einangra (e. isolating), að ógna (e. threatening) og að hunsa (e. ignoring). Hægt er að lesa frekar um þessar skilgreiningar og uppruna þeirra í hlekk á greinina sjálfa hér fyrir neðan.

Allir 12 iðkendur sögðu frá því að þjálfari sinn hafi notað hegðun sem teljist til þessara lykilhugtaka andlegs ofbeldis. Allir sögðu þjálfara sinn hafa öskrað á sig og gert lítið úr sér. Iðkendur sögðu öskur þjálfara hafa hrætt sig þar sem það virtist vera sama hvað þau gerðu, þeim fannst þau alltaf gera eitthvað vitlaust. Einnig sögðu níu af 12 (75%) iðkendum að þjálfarar hafi notað niðurlægingu og ógnun í þjálfun sinni og sjö af 12 (58%) að þau hafi verið gerð að blóraböggli. Notkun niðurlægingar sat enn í iðkendum löngu eftir að iðkun íþróttarinnar var hætt. Helmingur iðkendanna sagðist hafa verið beittur hunsun og höfnun af þjálfara sínum og fjórir af 12 (33%) sögðu að einangrun hafi verið notuð í sinni þjálfun.

Iðkendur voru einnig spurðir hversu oft áðurnefnd hegðun hafi átt sér stað. Hér er eingöngu talið upp þegar iðkendur sögðu að hegðun þjálfara hafi átt sér stað „oft“. Öskur sögðu allir iðkendur hafa verið notuð oft, 75% iðkenda sögðu að niðurlæging og að gera lítið úr þeim hafi verið notuð oft. Helmingur sagði að ógnir og að vera gerð að blóraböggli hafi verið notað oft og 16% iðkenda sögðu einangrun, hunsun og höfnun hafi verið notuð oft.


„Ég gafst upp því ég bjó ekki yfir neinu sjálfstrausti því þjálfarinn minn sagði mér stöðugt að ég væri rusl og einskis virði. Ég trúði þessu og þetta fylgdi mér út í lífið og er nú hræddur við höfnun og mistök vegna þess sem þjálfarinn gerði.“


Iðkendur sögðu að í kjölfar þessa andlega ofbeldis frá þjálfurum fannst þeim þau vera heimsk, einskis virði, í uppnámi, þau skorti sjálfstraust, voru reið, þunglynd, niðurlægð, sár og hrædd. Slíkar tilfinningar eða hugsanir eru samhljóma við andlegt niðurbrot sem iðkendur sýna þegar þá skortir trú á eigin frammistöðu. Greinahöfundar kalla þetta litla trú á eigin frammisöðu (e. Low Performance Self Efficacy) sem getur einmitt haft skaðleg áhrif á frammistöðu viðkomandi.

Þegar í slíka stöðu er komið, að iðkandi hefur ekki trú á sjálfum sér og frammistaðan endurspeglar það, gæti það ýtt undir frekari ofbeldishegðun þjálfara þar sem iðkandi nær ekki þeim væntingum eða markmiðum sem búið var að setja.

Þjálfari með iðkendur á afreksstigi gæti einnig litið á árangur iðkenda sinna sem sinn persónulega árangur, hvernig hann/hún er metin sem þjálfari út frá velgengni iðkandans og hvaða framtíðaráhrif sá árangur muni hafa á sinn þjálfaraferil.

Iðkendur töldu þjálfara sína hafa misnotað valdastöðu sína og sögðust hafa fundið fyrir afleiðingum hegðunar þeirra. Allir viðmælendur sögðu breytingu til hins verra hafa átt sér stað í þjálfun þegar iðkandi færðist yfir á afreksstig. Þeim fannst meiri alvarleiki í viðhorfi þjálfara taka við.


„Hann varð mjög ákafur og ýtinn, nánast á einni nóttu. Eins og þetta væri hans íþrótt núna og hans ferill en ekki minn.“


„Já hann varð að einhverjum valdadjöfli (e.power maniac) af því að ég var góð, hann hélt að það væri allt hans afrek.“


Þar sem allir aðspurðra í þessari rannsókn könnuðust við hegðun sem gæti flokkast sem andlegt ofbeldi er ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort slíkt eigi sér stað í

meira mæli en fólk gerir sér grein fyrir? Er ákveðin hegðun innan íþrótta réttlætanleg í ljósi þess að verið er að vinna að markmiðum eða sigrum?


Hér má nálgast grein Gervis og Dunn í heild sinni: www.https://onlinelibrary.wiley.com/doi/abs/10.1002/car.843


Vangaveltur samskiptaráðgjafa um greinina.

Lærdómur sem hægt er að draga af þessari grein væri því meðal annars að niðurlægjandi og ógnandi framkoma sem notast við öskur, hunsun og höfnun er ekki vel til þess fallin að ýta undir góða frammistöðu. Slík hegðun eins og fram kom í geininni virtist ýta undir neikvæðar tilfinningar iðkenda á borð við reiði, þunglyndi, hræðslu og hugsanir um að finnast maður vera heimskur og einskis virði. Það gefur auga leið að sá sem glímir við slíkar hugsanir og tilfinningar sé ekki í sínu besta andlega formi til að standa sig vel í þjálfun, hvað þá keppnum. Það er líklegt að þjálfarar notfæri sér slíkar aðferðir til þess að reyna að ná fram ákveðnum árangri eða frammistöðu. Er það hinsvegar nauðsynlegt að beita slíkri hegðun? Er ekki hægt að ná sama takmarki með öðrum leiðum en að lítillækka og hóta?

Áherslur á jákvæða gagnrýni og uppbyggilegan anda í íþróttastarfi er vænlegra til vinnings, skapar betra umhverfi fyrir alla og ýtir frekar undir betri frammistöðu.




Recent Posts

See All

Skilgreiningar ofbeldis

Ofbeldi Ofbeldi eru athafnir sem valda öðrum einstaklingi sársauka, andlegum eða líkamlegum, án tillits til þess hvort um er að ræða...

Comments


bottom of page