top of page
  • sigurbjorg

Afleiðingar eineltis

Ef einhver sem þú þekkir hefur verið beitt/ur einelti í íþróttum, æskulýðsstarfi eða skóla þá er mikilvægt að hvetja viðkomandi til þess að láta vita af því. Það er hægt að láta einhvern sem maður treystir vita, vin, foreldri, systkini, kennara eða leiðbeinanda.  

Hverjar eru afleiðingar eineltis?

Einelti er ekki liðið í íþrótta eða æskulýðshreyfingum, það eiga allir rétt á því að sér líði vel. Oft er talað um einelti og hvernig það getur lýst sér. Frekari upplýsingar um það er hægt að finna á fræðslusíðu samskiptaráðgjafa. Það er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um þær afleiðingar sem einelti getur haft í för með sér. Það eru ekki bara þær afleiðingar sem koma fram þegar eineltið á sér stað, heldur getur það haft langtímaáhrif bæði fyrir þá sem verða fyrir eineltinu og fyrir þá sem beita því. 
Skammtímaafleiðingar

Á meðan einelti er í gangi er eðlilegt að sá sem verður fyrir því finni fyrir vanlíðan og kvíða. Óöryggi og hræðsla geta verið til staðar hjá þessum aðila sem finnst hann/hún ekki vera öryggur og upplifir jafnvel að hann eða hún hafi gert eitthvað rangt eða vitlaust. 

Kvíði getur brotist fram sem líkamlegir verkir eins og magaverkur eða höfuðverkur og er því oft kvartað undan slíku. Börn eiga það einnig til að forðast þá staði þar sem þeim líður illa eða þar sem meiri líkur eru á að þau verði fyrir eineltinu. Með slíkri félagslegri forðun þá missa börn gjarnan af tækifærum til hreyfingar, skemmtunar eða samskipta við aðra jafnaldra. Depurð, þreyta, vonleysi og áhugaleysi eru því skiljanlegar afleiðingar þegar börn verða fyrir einelti. 

Í einhverjum tilfellum breytist líðan til hins betra þegar einelti hættir eða er upprætt. Einhverjir ná að losna við þær afleiðingar sem þeir glímdu við og allt breytist til hins betra. Það er þó ekki alltaf þannig.

Langtímaafleiðingar

Þeir sem verða fyrir einelti sem börn geta borið afleiðingar þess inn á fullorðinsárin. Þegar búið er að áreita og uppnefna einhvern í lengri tíma kemur fyrir að viðkomandi fer að trúa því sem við hann er sagt. Sjálfstraust og sjálfsálit getur skaddast og á fullorðinsaldri er hægt að sjá þess merki. Fullorðnir einstaklingar gætu því haft litla sem enga trú á eigin ágæti í leik og starfi. 

Félagsleg einangrun getur aukist þar sem viðkomandi treystir illa öðrum og heldur sig meira til hlés eða hreinlega forðast ákveðnar aðstæður. Þá á sama hátt og hjá börnum missir þessi einstaklingur af tækifærum til félagslegra athafna og samskipta. Vanlíðan og þunglyndi verða því skiljanlegir fylgifiskar. 

Einnig eru auknar líkur á kvíða á fullorðinsaldri hjá þeim sem urðu fyrir einelti sem börn, sérstaklega ef eineltið var langvarandi og margskonar. Það er eineltið var til dæmis bæði andlegt og líkamlegt.

Afleiðingar hjá gerendum

Nauðsynlegt er að stöðva gerendur eineltis og koma í veg fyrir að þeir leggi fleiri í einelti seinna meir. Margir beita einelti vegna eigin hræðslu um að verða lagðir í einelti eða út af eigin vanlíðan af ýmsum ástæðum. Ef börn fá ekki aðstoð við að glíma við eigin vanlíðan getur hún haldið áfram og haft áhrif til lengri tíma. 

Með því að grípa inn í og uppræta einelti er einnig verið að hjálpa þeim sem beita eineltinu. Svo að slík hegðun verði ekki sú aðferð sem hann eða hún velur til þess að glíma við erfið samskipti í framtíðinni. Þeir sem beita aðra einelti í æsku eru líklegri til þess að sýna af sér andfélagslega hegðun og stunda glæpsamlegt athæfi á fullorðins aldri en þeir sem beita ekki einelti. 

Það er því til mikils að vinna fyrir alla að uppræta einelti og veita öllum sem að málum koma viðeigandi aðstoð. Það er ekki bara verið að stöðva vanlíðan þeirra sem verða fyrir ofbeldi. Heldur eru það bæði þeir sem beita einelti og verða fyrir því sem þarf að hjálpa til styttri og jafnvel til lengri tíma. 

Upplýsingar sóttar í eftirfarandi rannsóknarritgerðir:

Hefur þú orðið fyrir einelti?

Leitaðu aðstoðar, segðu einhverjum sem þú treystir frá.  Þú getur líka haft samband við samskiptaráðgjafa í síma 839-9100 eða sendu tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is


Frekari upplýsingar um einelti:

Commentaires


bottom of page