top of page

Einelti í íþróttum eða æskulýðsstarfi

Skilgreining eineltis

Með hugtakinu einelti er átt við síendurtekna hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa, hunsa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Einelti er endurtekið andlegt ofbeldi þar sem einn eða fleiri níðast á eða ráðast endurtekið á ákveðinn einstakling.

Einelti er ofbeldi og félagsleg útskúfun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann og gerandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps. Einelti birtist með ýmsum hætti, t.d. með stöðugri stríðni á einn eða annan hátt, illu umtali, fórnarlambið gert að aðhlátursefni, því sýnd vanþóknun og hæðst er að því. Einelti er útskúfun og upplifir fórnarlambið sig óvelkomið og útilokað af hópi sem það tilheyrir. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Dæmi um einelti: Þegar sífellt er verið að setja út á einstakling eða gera lítið úr honum. Þegar er verið að móðga aðra viljandi og halda þeim frá því að vera með í leik og starfi.Þöglir áhorfendur

Einelti getur falið í sér að þolandinn upplifir alla eða flest alla í hópnum á móti sér, þó svo að í langflestum tilvikum sé meirihlutinn óvirkur í stuðningi sínum við eineltið. Það er ekki síður slæmt að taka þátt með óbeinum hætti, svo sem að horfa á, segja ekki frá o.s.frv. Aðeins lítill hluti hópsins er virkur gerandi, en nýtur stuðnings hins hlutans vegna aðgerðarleysis hans. Margir óvirku gerendanna líta svo á að hættulegt sé að taka upp hanskann fyrir þolandann, það gæti leitt til þess að þeir sjálfir verði fyrir aðkasti.

Einelti eða samskiptavandi?

Það er ekki einfalt að ákveða hvort um einelti sé að ræða þegar samskiptavandi kemur upp. Samskiptavandi birtist á margvíslegan máta og er misalvarlegur. Í mörgum tilfellum geta einstaklingar sjálfir leyst úr málunum og þurfa að fá tækifæri til þess svo samskiptafærni þeirra megi þroskast. Stundum er um misskilning að ræða, stundum verður einstaklingum aðeins of heitt í hamsi eða ákveðinn galsi fer úr böndunum en stundum verður þó til neikvætt mynstur í samskiptum sem einstaklingar geta ekki sjálfir leyst sín á milli og fer að hafa neikvæðar afleiðingar á líðan viðkomandi. Samskiptin geta verið með eða án orða, svo sem að gera lítið úr, móðga, ógna, beita ofbeldi, hunsa, gefa augnaráð eða svip o.fl. Það má segja að einelti sé alvarlegasta stig samskiptavanda; þegar síendurtekin hegðun er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður og reka eða útskúfa viðkomandi úr samfélagi jafningja.


Hverjar eru birtingarmyndir eineltis?

Nokkur dæmi um óbeint einelti:

 • Skilja einhvern útundan, þ.e.a.s. að neita viðkomandi um aðgang að samfélagi jafningja.

 • Tala illa um einhvern, ógna, hæðast með orðum, vera með niðrandi og særandi athugasemdir um viðkomandi.

Nokkur dæmi um beint einelti:

 • Hrinda, sparka, berja, klípa, klóra, binda, elta, uppnefna, eyðileggja eignir.

 • Halda einhverjum föstum eða loka inni gegn vilja hans.

Nokkur dæmi um neteinelti:

 • Með skrifum og myndbirtingum á samskiptamiðlum t.d. Facebook, Instagram, á bloggsíðu, YouTube eða með SMS.

 • Þegar neikvæðar sögur, frásagnir, lygar eða meiðandi myndir eru settar á netið.

Vísbendingar um að einelti gæti verið í gangi:

 • Komið heim úr skóla/æfingum/félagsstarfi með rifin föt, rennandi blaut eða úr lagi gengin.

 • Verið með sár, klór eða aðra líkamlega áverka sem erfitt er að útskýra.

 • Lent í því að persónulegar eigur s.s. gsm sími, íþróttabúnaður o.fl. sé skemmt.

 • Hræðist að fara eitt á og af íþróttaæfingu/félagsstarfi þar sem möguleiki er á að lenda í hvers kyns ofbeldi á leiðinni til og frá heimili.

 • Leggur fyrr af stað á æfinguna /fundinn en venjulega eða fer seinna af stað.

 • Mætir illa á æfingar/félagsstarf.

 • Mætir iðulega of seint.

 • Forðast ákveðnar aðstæður eins og t.d. að vera innan um ákveðna einstaklinga innan hópsins.

 • Staðnar í getu og fær ekki að njóta sín sem einstaklingur.

Vísbendingar á heimili þolanda:

 • Neitar að fara í félagsstafið/íþróttaæfinguna.

 • Einangrar sig frá öðrum fjölskyldumeðlimum.

 • “Týnir” peningum og öðrum eigum og biður um auka vasapening (til að þóknast geranda eða er rændur).

 • Neitar að leika sér úti í frítíma sínum.

Af hverju segja þolendur ekki frá?

 • Í augum félagahópsins er „að segja frá” það sama og að „klaga”.

 • Sektarkennd.

 • Eineltið beinist að viðkvæmum, persónulegum málum sem þolandinn vill ekki ræða.

 • Hræddir um að ástandið versni.

 • Hefur verið hótað.

Viðbrögð sem sumir þolendur gætu sýnt:

 • Undrun, hræðsla og grátur og þegar á líður geta reiði og ofsaköst tekið við.

 • Reynt er að láta lítið fyrir sér fara, skróp og undanþágur og þá sérstaklega í íþróttum og félagsstarfi.

 • Kenna sjálfum sér um hvernig komið er og sjálfstraust býður varanlega hnekki.

 • Áhugi dvínar á skólastarfinu og einkunnir og árangur verða lakari.

 • Vansælir og niðurdregnir einstaklingar.Hvað á ég að gera ef ég hef orðið fyrir einelti?

Láttu vita. Ef þú hefur einhvern í þínu lífi sem þú treystir segðu honum, henni eða þeim frá. Ef þú vilt ekki segja einhverjum sem þú þekkir hafðu þá samband við samskiptaráðgjafa. Þú getur fengið aðstoð við að láta eineltið hætta.


Afleiðingar eineltis

Afleiðingar eineltis geta verið mjög víðtækar og alvarlegar og jafnvel fylgt þolandanum ævilangt. Því lengur sem einelti er látið óáreitt og ekkert er viðhafst því alvarlegri geta afleiðingar þess orðið.

Hér fyrir neðan eru dæmi um afleiðingar eineltis:

 • Þolandi eineltis upplifir sig einmanna, að hann enga vini og sé félagslega einangraður.

 • Versnandi andleg líðan sem getur valdið skapgerðar- og jafnvel persónuleikabreytingum.

 • Brotin sjálfsmynd, ofurviðkvæmni, kvíði, depurð, sjálfsásökun og öryggisleysi.

 • Ýmsir sállíkamlegir kvillar, eins og spenna, kvíði og þunglyndi sem oft birtast í álagseinkennum eins og höfuðverk, magaverk eða svefnleysi.


Aðstoð við vanlíðan

Það er hægt að fá aðstoð við að vinna sig út úr vanlíðan sem einelti getur orsakað. Þú getur haft samband við heilbrigðismenntaðan fagaðila eins og til dæmis sálfræðing eða fengið upplýsingar hjá heimilislækni. Einnig er hægt að fá frekari ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa um hvert er hægt að leita, hafðu samband.

Comments


bottom of page